Under connstruction

Currency

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að vera boðinn í Stóru-Laxá 25.október síðastliðinn og þáði ég boðið. Þó var ég pínu efins hvort ég ætti að þiggja boðið en gerði það nú samt. Sérstaklega vegna þeirrar gagnrýni sem þessar tilraunaveiðar hafa fengið og allt þetta neikvæða umtal. Fólk má hafa sína skoðun á þessum veiðum, þessari tilraun, og segja hvað það vill um hana. Ég skal fúslega viðurkenna það að ég var í hópi efasemdarmanna hvað þetta varðar og hvort þetta ætti rétt á sér eður ei. Hins vegar hef ég sparað allar yfirlýsingar hvað þetta varðar og því lét ég slag standa og fór í Stóru- Laxá.

 

Við vorum tveir á stöng og sá sem var með mér er vanur veiðimaður og lærður fiskeldisfræðingur - og fannst mér það bæði ljúft og gaman að vera með honum við veiðarnar og lærði ég helling á þessum fjórum og hálfa tíma sem við vorum við veiðar. Til að gera langa sögu stutta þá fengum við níu laxa og misstum aðra fjóra, sem sagt settum við í 13 laxa á þessum stutta tíma. Við fengum tvo smálaxa í Kálfhagahyl, báðir hængar og var þeim sleppt eftir stutta viðureign. Þaðan fórum við í Ófærustreng og fengum þrjá fiska þar og voru það allt nýgengnar hrygnur sem áttu svona tvær til þrjár vikur í að vera tilbúnar í hrygningu. Það var kominn smá slakki við gotraufina á þeim og var þeim því sleppt strax. Síðan fórum við niður í Bergsnös og þar fengum við fjóra laxa. Einn hæng og þrjár hrygnur. Ein af hrygnunum var að verða tilbúin í hrygningu og var henni komið fyrir í safnkassa og var henni svo skutlað uppá efra svæðið næsta morgun. Hængunum var sleppt vegna stærðar sinnar en um smágogg var að ræða. Hina tvær hrygnurnar voru báðar nýlegar og áttu að minnsta kosti tvær til þrjár vikur í að vera tilbúnar í got.Eftir þessa reynslu mína blæs ég á alla gagnrýni og tel þetta vera gleðiefni fyrir okkur sem hafa ástríðu á veiðum að kannski er það möguleiki á að lengja tímabilið eitthvað. Allar upphrópanir eins og þetta sé græðgi eða þetta sé að rústa hrygningunni eiga ekki rétt á sér sýnist mér. Þetta er svona svipað og veiða leginn fisk eftir miðjan september í öðrum ám. Því svo virðist sem hrygningin sé á mismunandi tíma eftir vatnasvæðum og landshlutum. Allar upphrópanir dæma sig sjálfar því það er eitt að halda og annað að vita. Þeir sem halda vita ekki neitt. Framtakið tel ég virðingarvert því núna hefur safnast saman nokkuð af upplýsingum um hegðunarmunstur laxins í Stóru-Laxá sem ekki var vitað um áður, eða var þagað í hel, og því er gott að fá þessar upplýsingar upp á yfirborðið og afla þessarar þekkingar á hegðun laxins í Stóru-Laxá 

Tæplega 90 cm hrygna úr Bergsnös

Tæplega 90 cm hrygna ú Bergsnös

Lítil hrygna úr Ófærustreng

Lítil hrygna úr Ófærustreng

Goggur úr Kálfhagahyl

Goggur úr Kálfhagahyl

Fiskarnir sem ég tók voru allir á nýja flugu sem ég hnýtti og verður hún kynnt til leiks með vorinu 2024, líklega svona í enda aprílmánaðar.

Með veiðkveðju 

Siggi

Leave a comment

Please note: comments must be approved before they are published.